Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010
Veiðifatnaður - hausverkur veiðimannsins
22.7.2010 | 13:45
Jæja, vöðlurnar gáfu sig endanlega fyrir nokkrum dögum og skórnir voru svo sem löngu ónýtir. Nú þarf ég að fjárfesta hluta af mínum dýrmæta "veiðibudget" í rándýrum veiðifatnaði sem dugar vart lengur en árið. Patagonía vöðlurnar mínar dugðu reyndar 2 ár en hafa lekið í allt sumar. Þetta gengur auðvitað ekki því sem dæmi var að alveg að frjósa í Tungufljóti þegar vaktinni lauk og nú er ég með kvef.
Og hvað skal velja? Ég þarf skó, öndurnarvöðlur og jakka. Þetta þarf að halda mér þurrum og skórnir þurfa að vera léttir en samt með góðu gripi og helst þannig gerðir að auðvelt sé að fara í og úr. Best væri einnig að jakkinn hafi marga vasa þannig að ég geti sleppt vestinu þegar þannig viðrar. Ég vil líka hafa festingu fyrir háf á bakinu og klippur að framan.
Það eru 19 dagar eftir í veiði og því þarf þetta dót að vera endingargott og þægilegt. Það er ekki gaman að vera í of þröngum veiðifatnaði og þetta má ekki vera stíft. Það er samkvæmt mínum útreikningum hægt að kaupa vöðlur og skó frá um 28-30 þúsund og jakkinn er svo auka 15 þúsund að lágmarki. Því má gera ráð fyrir a.m.k. 45 þúsund bara til að vera þurr.
Nú er að fara leiðangur og kanna kaup og kjör hinna ýmsu veiðibúða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frostastaðavatn - Dagur 31
20.7.2010 | 13:29
Fór með strákana í Frostastaðavatn, þ.e. þetta er eitt af vötnunum sunnan Tungnár, rétt sunnan við Veiðivötn.
Það var nóg af fiski, reyndar alveg bullandi tökur út um allt en frekar smá bleikja. Það er töluvert minna í vatninu en ég hef séð áður, munar alveg hálfum metra eða meira og það er líklega ástæðan fyrir því að stærri bleikjan er ekki að láta sjá sig nærri landi.
En litlar bleikjur gleðja unga veiðimenn og við skemmtum okkur vel þarna uppfrá, veðrið var ekki nógu gott um miðjan daginn en datt í algera bongó blíðu þegar líða tók á.
Þetta er alveg stórskemmtilegt svæði og ég fer allt of sjaldan að veiða þarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugarvatn - Dagur 30
20.7.2010 | 11:45
Fór með krakkaskarann á bát á Laugarvatni og það var svaka fjör, 3 stangir úti allan tíma og ekki högg :)
Það voru ýmsar flugur prófaðar og ég réri allt vatnið þvert og endilangt. Við sáum reyndar fullt af tökum en erfitt að eiga við þetta með 3 og 5 ára veiðifélaga sem höfðu eftir 10mín meiri áhuga á að detta úr bátnum en að veiða.
En svona er þetta, sumir dagar eru barasta fínir til að fá sér ís, aðrir í eitthvað annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tungufljót - Laxasvæði - Dagur 29
14.7.2010 | 15:11
Jæja hérna, dagurinn í gær var alveg frábær, ég tók kvöldvakt í Tungufljóti og ákvað að sjá hvort ég gæti veitt á gárutúpu á þessu svæði, en ráðlagt er að nota tvíhendu og sökkenda :)
Ég hefði kannski betur hlustað en ég hef ekki skemmt mér jafn vel með gárútúpu áður, þó ég næði ekki neinum á land þá missti ég einn og reist ég veit ekki hvað marga laxa. Enda er þetta svæði fullt af fiski.
Ég hitti stráka sem voru komnir með 14 laxa og voru alls ekki hættir. Veðrið var misjafnt, gekk á með grenjandi rigningu og sól og blíðu, íslenskt veður .)
Ég vona innilega að ég komist aftur í Tungufljótið sem fyrst, þetta er frábært svæði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Makrílveiðar - Dagur 28 og hálfur
12.7.2010 | 10:44
Fór að veiða í hálfan dag, Makríl við Kópavogshöfn! Mjög sérstakt og skemmtilegt. Fékk 5 Makríla og eitthvað af ufsa etc. En mikið var þetta gaman, krakkarnir voru með og Bubbi veiddi fyrr um daginn 8 stk. sem við borðuðum í kvöldmatnum yfir HM úrslitaleiknum. Alger snilld.
Makríllinn er feitur fiskur og bestur nýveiddur, hann þránar fljótt en verður þá hin allra besta beita fyrir urriðann. Ég sá mér því leik á borði, að næla mér í beitu að auki.
Þetta var semsagt hin besta skemmtun og að auki fengum við í matinn, dálítil Skandinavíustemning á Digranesveginum í gær :)
Nýveiddur makríll úr Kópavogi.
Makríllinn er flakaður og beinahreinsaður, velt upp úr hveiti sem er blandað salti og pipar og steiktur upp úr smjöri. Fyrir þá sem eru með mjólkuróþol er gott að nota olíu og smá smjörlíki.
Ég steikti sætar og venjulegar kartöflur ásamt gulrófum og baunabelgjum með.
Saffransósa passar mjög vel með þessum fiski. En uppskriftin er einföld og fljótleg. Fiskisoð 1 eining, estragon og saffran er sett út í eftir smekk, síðan er þetta soðið niður um helming. Þá er bætt við rjóma, 1 eining, aftur soðið niður um helming. Salt, pipar og sítrónusafi eftir smekk og allt tilbúið.
Ein eining hjá mér er um 2,5 dl. fyrir ca 4-5. Enn og aftur fyrir þá sem eru með mjólkuróþol er gott að nota hafragervirjómann, það er hægt að kaupa þá í ca 2,5 dl. einingum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Stóra Laxá - Hreppum - Svæði III - Dagar 27 og 28
10.7.2010 | 14:00
Ég og Bubbi fórum í Stóru Laxá, á svæði III. Tókum seinni vaktina 8. og fyrri 9. sl. semsagt í fyrradag og í gær.
Veðrið var frekar lélegt eins og venjulega, mikill vindur og hráslagalegt en ég var að vona að morgundagurinn yrði betri.
Ég setti saman nokkur vídeó úr ferðinni. Fyrsta myndbandið er kvöldvaktin, síðan kemur morgunvaktin og loks smá samantekt.
Við gerðum góða ferð í Stóru, settum í 8 fiska en náðum 5, þar af einum alvöru dreka. Mynd af honum neðst í þessu innslagi.
Hér að ofan er mynd af Bubba með aflann sem við tókum heim,tekin á pallinum við veiðihúsið.
Síðan er það myndband með kvöldvaktinni, kalt og mikill vindur, fengum tvo og misstum 2.
Þá er það morgunvaktin, fengum 3 og misstum 1. Veðrið skánaði mikið þegar líða tók á morguninn en var svo sem allt í lagi allan tímann, dálítið strekkingur fyrst.
Hér kemur eftirmáli.
Þá er það drekinn, 93 sm hængur, tók í Heljarþrem eins og allir fiskarnir í ferðinni. Tók Sun Ray gárutúbu með grænu í, þríkrækja nr. 12.
Þessum landaði ég á um 20 mínútum með stöng nr. 6. Tók ansi vel í og ég þurfti að hafa fyrir hlutunum. Hélt lengi að hann væri um 10 pund en sá kom mér á óvart þegar hann hreinsaði sig :)
Þessi er um 20 sm stærri en sá sem kemur næstur í röðinni, en það var maríulaxinn minn. Þetta var algerlega geggjað.
Þetta er náttúrulega langstærsti fiskur sem ég hef náð og ég er ennþá alveg í skýjunum, meira en sólarhring seinna :)
Nú eru 22 dagar eftir og greinilegt að ég verð að fara að spýta í lófana ætli ég mér að ná þessu, ég á 20 daga eftir í sumarfríi en á eftir að flytja okkur vestur á Ísafjörð fyrir 1. ágúst, þannig að þetta verður væntanlega ansi tæpt ef markmiðið næst. Auglýsi hér með eftir góðhjörtuðum leigutökum sem vilja leggja málinu lið :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eystri Rangá - Dagur 26
7.7.2010 | 20:23
Úff, jæja. Dagur 26 í Eystri.
Ég var mjög bjartsýnn þegar ég lagði af stað, veðurspáin var reyndar hræðileg en ég var með tvíhendu með mér. Í stuttu máli var ég frekar óheppinn með svæði, það veiddist ekkert á þær þrjár stangir sem þar voru en veiddist bæði fyrir ofan og neðan. Gat nú verið.
Setti saman stutt vídeó:
Eystri var frekar lituð en samt skárri en undanfarna daga segja vitrir menn :) Það var svo sem fiskur þarna, setti í einn frekar seint en flugan settist illa og fór úr við fyrsta átak.
Gengur betur næst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Veiðidagur fjölskyldunnar - Þingvellir og Reynisvatn - Dagur 25
5.7.2010 | 09:21
Jæja, þá er markmið sumarsins hálfnað, 25 dagar í veiði eru staðreynd.
Nú fórum ég og Sigrún ásamt Bubba, Gústa og Maríu á Þingvelli og enduðum í Reynisvatni þar sem almennt fiskleysi virtist staðreynd. Gústi og María voru bæði með nýjar stangir, Gústi valdi sér Batman stöng og María endaði í bleikri Barbie. Allir voða sáttir og mikið fjör.
Setti smá vídeó saman úr Reynisvatni, Bubbi setti í regnbogasilung og María var að missa sig yfir þessu öllu saman. Allt í allt komu 4 silungar á land í gær og dagurinn var alveg frábær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stóra Laxá - Svæði 4 - Dagur 23 og 24
4.7.2010 | 09:15
Jæja, þá er komið að ferð 1 í lax í sumar. Stóra í Hreppunum, svæði 4 varð fyrir valinu, reyndar ansi snemmt en það er aldrei að vita hvað gerist. Meðalveiðin er 70 laxar á sumri sem er ansi lítið, því ég skaust hingað eina vakt í fyrra og við fengum 3 þá. Ég helt að veiðin væri meiri, en hvað veit ég.
Við Danni rúlluðum upp eftir og höfðum plön um að fara niður aftur í tíma fyrir Brasílíu - Holland leikinn en það átti eftir að koma á daginn að gekk ekki alveg eftir.
Við veiddum frá kl. 16-22 í alveg brjáluðu veðri, roki og rigningu með óveðurspá og viðvaranir í útvarpinu :) Alvöru sko. Við byrjuðum í Klapparhyl og veiddum okkur niður ánna. Síðan fórum við á neðsta svæðið nema við slepptum alveg neðsta veiðistaðnum, Bláhyl því við höfum ekki tíma. En þetta var nánast ómögulegt, vindurinn alveg á fullu, við báðir með einhendur og varla hægt að kasta. Hérna er vídeó með fyrstu vaktinni.
Við vöknuðum kl. 6 um morguninn eftir og náðum að hella upp á kaffi auk þess að troða í okkur smá morgunverði en síðan var haldið af stað upp eftir og þar áttum við eftir að rekast á nokkra kafbáta í veiðistað sem heitir Skerið, þvílíkir fiskar. Síðan var haldið á Hólmasvæðið og við enduðum vaktina í Klapparhyl, þar sem við byrjuðum og þá byrjaði ævintýrið fyrir alvöru.
Oh boy, fyrsti alvöru laxinn á land í sumar, 68 sm flottur, nýgenginn og lúsugur. Það kom mér verulega á óvart að sjá lúsuga laxa nánast uppi á hálendi. 80 km til sjávar og þeir taka þetta bara á sprettinum. Myndband af seinni vaktinni er hér.
Hann tók kl. 12.30 og ég var 1 tíma og 15 mínútur að ná honum, aðstæður voru mjög erfiðar, klettanef á vinstri hönd og þverhnýpt niður, ég gat því lítið tekið á honum og varð að þreyta hann rólega en örugglega og vona að línan héldi þrátt fyrir að vera stanslaust að nuddast við grjót.
Síðan gekk löndunin alveg hreint frábærlega og við nánast hlupum uppeftir til að ná seinni hálfleik sem við horfðum svo á á bensínstöðinni í Árnesi :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)