Færsluflokkur: Bloggar

Hraun í Laxá í Aðaldal

Hraunið í Laxá í Aðaldal er síðasta svæðið sem ég átti eftir að prófa í þessari stórfenglegu á. Það olli ekki vonbrigðum svo vægt sé til orða tekið. Þurrflugur og sprækir urriðar eru minningarnar sem ég tek með mér eftir tvo frábæra daga.


Efri-Haukadalsá

Skrapp um síðustu helgi í Efri-Haukadalsá með nokkrum æskufélögum frá Patró. Skemmst frá að segja var ferðin hin ánægjulegasta og hitti ég fyrir bæði ágætis sjóbleikur í nokkru magni og eitt stykki lax. Helsta veiðivon í ferðinni var bleikjan í ós vatnsins, merkt á veiðikortinu -1.

20160718_130456 (2)

Töluvert mikið var af bleikju og lönduðum við yfir 50 slíkum á frekar skömmum tíma. Í ferðinni lágu tveir laxar, báðir frekar smáir samt en við sáum mikið af boltalaxi frá Arnarkletti og sérstaklega í gilinu. Laxinn hjá mér tók örlitla kröfu en hinn Green Butt. 

Læt fylgja með myndband sem ég tók í ferðinni og fer ég yfir nokkur atriði þar varðandi aðstæður og fleira.

 


Gufudalsá í Reykhólahreppi

Skellti saman veiðistaðalýsingu byggða á viðtali sem ég tók við Einar Valgeir Hafliðason í fremri-Gufudal árið 2014.



Efra svæði er frá vatni og frameftir að fremri fossi.

Fremra svæðiFremri Foss
er fremsti hylurinn sem má veiða í. Þar rennur fiskurinn oft niður í lygnuna fyrir neðan fossinn og tekur þar. Maður getur séð niður með fossinum smá spegil eftir klettinum, þar sjást stundum stórir fiskar. Í fremri fossi veiðist bleikja.

Rennan
þar liggur oft fiskur neðarlega í rennunni og getur tekið vel í smá stund í einu. Veiðistaðurinn er mjó renna sem liggur á milli klettana, en best tekur bleikjan neðst í rennunni.

Spegillinn
á milli kletta breiðir áin dálítið úr sér og endar í broti neðst og þar er oftast fiskur.

Kletturinn
er rosalega misjafn staður. Stundum og sérstaklega ef mikið vatn er í ánni gefur Kletturinn vel. Kletturinn sem veiðistaðurinn er nefndur eftir er austan megin við ána og raðar sér þarna oft fiskur. Það fer dálítið eftir vatninu í ánni hvernig þessi staður gefur.

Neðri foss
tökustaðurinn er klapparhaft fyrir neðan fossinn og þar liggur fiskur neðarlega. Það er erfitt að kasta flugu þarna, sérstaklega í austanátt. Mjög misjafnt svæði.

Olnbogi
er beygja á ánni. Það eru steinar í þessum veiðistað og þar er yfirleitt alltaf fiskur. Tökustaðir eru margir.

Túnendi
Stundum er enginn fiskur þarna allt sumarið en stundum er verið að moka honum upp. Það er bugða þarna í ánni og steinar í botninum. Veiðistaðurinn endar í smá hafti neðst og þar liggur oft fiskur.  

Bugur
er veiðistaður þar sem áin hefur brotið landið svolítið að austanverðu. Þessi veiðistaður var ekki til hér áður en á seinni árum hefur verið töluvert um fisk þarna. Helst hefur fiskurinn verið að taka neðantil í bugnum.

Hjaltastaðir
eru frekar sérkennilegur hylur. Þetta er við torfbakka en það er ekki alltaf fiskur þarna. Tökustaðurinn er neðarlega í hylnum. Áin er svolítið á ferðinni þarna.

Uxamýri
Þarna var áin grafin og endar á spegli neðantil. Yfirleitt er þarna fiskur síðsumar, þegar komið er fram í ágúst.

Vatnið og neðra svæðið

Steinarnir
svona 50 metra út frá Steinum liggur oft torfa af fiski. Það er erfitt að segja til um hvar torfan er nákvæmlega en hún þarna í kring og þarf að eins að leita að henni. Ef fiskur tekur, þá færir torfan sig til um 20 til 30 metra.

Bakki
það er alltaf fiskur á þessum stað. Þú færð fiskinn alltaf til að elta þarna. Á Bakka voru netin lögð í gamla daga. Tökustaðir eru í kastfæri fyrir krakka og fiskurinn kemur mikið með landinu.

Skipaoddi
Það þarf dálítið að vaða út frá Skipaodda og stundum liggur lax þarna. Hann sést stundum í speglinum á morgnanna.

Affall
Það veiðist yfir 50 prósent af laxinum í Affalli. Bleikjan á það til að síga niður úr vatninu á ákveðnum tímum dagsins. Það er stífla og byrjar straumbrotið úr vatninu og rennur í ána.

Stokkur
er langur hylur fyrir neðan túnin, beint fyrir neðan veiðihúsið og þar er alltaf einhver fiskur. Fiskur leggst oft á brotið fyrir neðan.

Stífla
Oft sami fiskurinn og í Stokki sem sem færir sig niður á stífluna. Stífan er rétt fyrir neðan girðinguna, það eru straumrennur á milli steinanna og geyma fisk á öllum tímum.

Stokksklettur
er djúpur hylur rétt ofan við þar sem  Álftardalsáin rennur í. Þar er mjög gjarnan dálítið af laxi og bleikjan fyrir neðan. Þarna eru klettar að austanverðu og malareyrar að vestanverðu. Bleikjan liggur á breiðu þar fyrir neðan en laxinn liggur oft við steina sem hafa hrunið úr klettinum.

Ármót
er hylur sem geymir oftast mikið af fiski en síðla sumars er oftast mikið af smáfiski. Þarna er torfbakki að austanverðu, dálítið grunnur hylur og beygjur sem enda í smá straumröst. Við mótin á lygnunni og straumröstinni þar liggur fiskurinn.

Brotin
Brotin eru mest smáfiskastaður en þó á laxinn til að stoppa þarna. Þessi staður er sambærilegur og Ármótin.

Hlíðarrenna
þar liggur áin meðfram torfbakka. Áin mjókkar aðeins og dýpkar en annars er þetta er sambærilegur staður við Brotin og Ármót en í öllum stöðum fyrir neðan vatn er alltaf smá von á laxi.

Suðurbakkar
eru sirka 100 metra fyrir ofan veg. Þarna hefur áin aðeins verið að greinast. Það hafa myndast bugur við austurbakkann og þar hefur fiskurinn verið.

Brúarhylur
er hylur við klettinn sem brúin er byggð á og torfbakki með grjóti í. Þarna liggur mjög gjarnan fiskur og gott að sjá hann af brúnni. Það er nokkuð algengt að fá lax í Brúarhyl.  Tökustaður er austan megin en oft gott að standa vestan megin við.

Engjarnar
Engjarnar og þeir hylir þar fyrir neðan (Fitjarbakkar, Sýkishólmur, Brekkuós, Miðós og Vesturós) eiga það sammerkt að þarna hinkrar fiskurinn við þegar hann er að ganga. Þetta er allt við torfbakka og hann stoppar þarna aðeins. Það gætir flóðs og fjöru alveg upp að brú og þegar byrjar að falla út þá er hann að stoppa þarna kannski í hálftíma eða klukkutíma þegar hann er að ganga upp. Þetta eru helst veiðistaðir á flóði. Þetta á við um staðina niður eftir, þe. að hann liggur ekki þarna en stoppar aðeins á göngu.  









Múlatorfa - Laxá í Aðaldal

Skrapp morgunstund í Múlatorfu í Laxá í Aðaldal með nafna mínum tíu ára. Var að vona að urriðinn væri komin í yfirborðsæti en það var enn of snemmt. Fengum þó fallega fiska og misstum eitthvað.

Hægt að nálgast veilileyfi fyrir Múlatorfu á vefsala.svfr.is. Einnig má finna upplýsingar um svæðið hér: Kort

 
Við áttum góða stund við ána og það má segja að veiða/sleppa hafi verið þemað í ferðinni. Það gekk vonum framar að ræða þau mál og eftir að hann sleppti fallegum urriða sagði hann, þetta er allt í lagi pabbi, ég elska dýr líka...
 
Ánægðir eftir góðan dag við ána

Laxárdalurinn

Þar sem maður er nú kominn með Laxánna í túnfótinn var ekki úr vegi að skreppa upp í Laxárdal og kíkja á stemninguna. Hitti þar fyrir skemmtilega veiðimenn sem voru í sögugírnum eins og oft vill verða. Í þetta skiptið tók ég bara nokkrar myndir og þáði kaffi.Laxá í Laxárdal

Skelli inn nokkrum myndum af mönnum og skepnum til gamans.

Veiðihúsið

Á neðra svæðinu í Laxá í Laxárdal

Geitur á vappi


Hlíðarvatn í Selvogi 2014

Þetta ágætisvatn er alger perla. Hef ekki farið þangað án þess að vera mjög ánægður. Átti magnaða kvöldstund þar 1. ágúst, setti í boltableikjur, þar af eina 57 sm og aðra 54 sm. Misstir nokkrar og náði fleirum, þó þær væru heldur smærri. 

Hlíðarvatn í Selvogi er stutt frá Reykjavík og má fara nokkrar leiðir að því. Ég hef undanfarið keyrt sem leið liggur Þrengslin til Þorlákshafnar og þaðan í vatnið og kem ég þá að því austan megin. 

Reykjanesskagi

57 sm bleikja úr Botnavík

Var í húsi SVH, sem er ágætt. Veiðileyfið kostaði 7.000 krónur fyrir daginn, en það er eitthvað ódýrara virka daga og nóg laust. Hægt er að fá veiðileyfi hjá nokkrum stangaveiðifélögum, t.d. Ármönnum, Árblik og SVH.

Veiðileyfi má nálgast á veida.is og leyfi.is

Það var fiskur um allt að hreyfa sig en virtist þó misjafnlega viljugur að taka. Besti staðurinn að þessu sinni var Botnavíkin og hún hefur oft verið gjöful.

Ég prófaði nú ekki mikið að þessu sinni enda hef ég því miður stoppað frekar stutt í þessu vatni undanfarin ár og þarf að gera bragarbót á því.

Hjalltanginn gaf ekkert að þessu sinni þó ég sæi fiska þar.

Ég notaði dropper, oftast Peacock og svo Dagbjörtu #16 að ég held frá Jóni Sig á Bíldudal. Sú stærsta tók einmitt Dagbjörtu og þá var ég með hana aftast á taumnum en dropperinn fyrir miðju.

Ég notaði mest 4p taum, amk. 9 fet og auðvitað tökuvara. Hægt er að sjá hvernig maður gerir sína eigin tökuvara mjög ódýrt í færslu frá mér fyrr á þessu ári. Ég nota í dag eingöngu mína eigin tökuvara.

Botnavík

En allt í allt frábær ferð og sérstaklega þakka ég veiðiverðinum og veiðikonunni Maríu Petrínu fyrir góð kynni og leiðsögn :)

María Petrína Ingólfsdóttir

WP_000365WP_000363

 

 


Efst á Arnarvatnshæðum

Heiðin tók á móti mér með fallegum fiski úr fyrsta hylnum sem ég prófaði í Austuránni þetta árið. Ég hef verið heppinn með góða kveðju úr þeirri á ansi oft og ég segi stundum, reyndar meira af alvöru en gamni að hún er uppáhaldsáin mín og kannski ekki að undra. Enda held ég að ég hafi veitt meira á þurrflugu þar en líklega í öllum öðrum ám samanlagt. Fiskurinn tók nú samt sem áður Watson´s Fancy þyngda púpu því þurrfluguveðrið lét á sér standa þetta árið.

AusturárurriðiStaðan á stofnunum virðist vera svipuð og síðust ár, bleikjan lætur lítið fyrir sér fara en samt heldur meira en undanfarin 2 ár. Urriðinn er fyrirferðarmeiri en hann var, sérstaklega í Arnarvatni stóra og Sesseljuvíkin í aðalhlutverki þar. 

Myndabandið er nú samt sem áður heldur öðru vísi en ég er vanur því tækifæri gafst til að taka upp ljóðið hans Jónasar Hallgrímssonar með góðri vina hjálp. Þar komu til Ragnar Gunnlaugsson frá Bakka í Miðdal og Sigfús Ívarsson frá Vatnsdal. Þeir sungu það í sjálfri Dísarbúð og að sjálfsögðu við mikinn fögnuð viðstaddra :)

 


Ódýrir tökuvarar

Tökuvarar eru misjafnir en af hverju ekki að gera sína eigin? Við hnýtum jú flugur. Tökuvarar eru tiltölulega einfaldir í gerð, tekur kannski um 2 mínútur.

Hér er stutt myndband sem sýnir hvernig ég geri mína tökuvara. Þú þarft O hringi sem hægt er að fá í járnvöruverslunum, á véla- og bifreiðaverkstæðum og víða annar staðar. Síðan ull, helst skæra liti og áberandi. Töng með löngum mjóum kjafti, þræðara úr fluguhnýtingum, nú eða nál með auga, gerir sama gagn. Tvinna, skiptir ekki öllu máli hvaða, bara að hann sé nokkuð sterkur og að lokum skæri.

Útgáfa 1 

 

Útgáfa 2

 


Sauðlauksdalsvatn í svaka fjöri

það vantaði ekki fiskinn í Sauðlauksdalsvatnið þegar ég var þar við veiðar í gær, sunnudaginn 18. maí.

20 fiskar á fjórum tímum, 16 urriðar og 4 sjóbleikjur. Töluverður vindur var og tók ég flesta fiskana á nokkurra metra kafla. Það myndaðist strengur með oddanum sem sést á myndinni hér fyrir neðan og rákir af froðu. Silungurinn var mikið í froðunni og mikil læti í honum.

19-5-2014_14-41-41.jpgKrakkarnir voru í essinu sínu á þessu svæði enda hentar það mjög vel fyrir fjölskyldur. Nóg af hvítum sandi og stöðum til að kanna. Vatnið er aðgrunnt og því þarf maður litlar áhyggjur að hafa.

Ég tók flesta fiskana á Peacock #14. Einfaldan og með svörtum hálsi og kúluhaus. Sú fluga virðist heilla silung nánast hvar sem er.

19-5-2014_14-44-00.jpg Ég skellti saman myndbandi og tónlistin er eftir hann pabba, Gústaf Gústafsson eldri og heitir lagið Þjóðvegur 60.

saud3.jpg


Stóra vatn í Vatnadal

Þvílíkur snilldardagur. Fór upp í Stóra vatn í Vatnadal á Súganda að ísdorga. Vatnadalur liggur ofan við Staðardal þar sem Bær og Staður eru, rétt utan við Suðureyri. Fengum helling af smábleikju syðst í vatninu þar sem áin rennur í það, en náðum því miður ekki í gegn um ísinn nema þar. Enda var ísinn rúmlega 1,5 metra þykkur ef ekki meira fyrir miðju vatningu. Þarf lengri bor, meira að segja járnkallinn dugði ekki niður. Einnig mun ég ná mér í fiskisónar til að finna holurnar fyrir næstu ferð. En dagurinn alveg frábær og hér er myndbandið og nokkrar myndir.

vlcsnap-2014-04-13-16h58m58s225.pngvlcsnap-2014-04-13-16h58m18s99.pngvlcsnap-2014-04-13-16h56m44s162.pngvlcsnap-2014-04-13-16h56m23s210.png


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband