Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Arnarvatnsheiði norðan megin 2013

Arnarvatnsheiðin klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Fyrsta árið reyndar sem ég sé ekki bleikju en urriðinn er greinilega að sækja í sig veðrið í vatninu sjálfu. Austuráin er í svipuðu horfi og á árinu 2012, mikið af minni fiski en vantar meðalstóran. Veður var heldur óhagstætt mestan hluta ferðarinnar þannig að það hvatti ekki til langra gönguferða en við fengum brakandi blíðu einn daginn sem var varið í góðu yfirlæti í Sesseljuvík og það var alger snilld.

Í myndbandinu er stutt viðtal við hann Eirík veiðivörð sem hefur verið okkur strákunum einstaklega hjálplegur og mikill félagi. Þar er höfðingi á ferð.

 

Arnarvatn stóra


Setbergsá á Skógarströnd

Í síðustu færslu fjallaði ég um Dunká og þannig vill til að ég fór beint þaðan nokkra kílómetra vestar á nesið og heimsótti Setbergsá. Tvídrangar í SetbergsáSetbergsá er mjög skemmtileg á og þar er fjöldinn allur af þrælskemmtilegum veiðistöðum, þó fannst mér veiðistaður #18, rétt ofan við Setbergsfoss frábær enda var hann fullur af fiski. Þó lágu fiskar víða um ána og til dæmis kom #11 mjög sterkt inn en hann er fyrir neðan Ranna #12 sem hefur verið talinn einn gjöfulasti hylurinn. Ég missti bókstaflega fisk um alla á en náði einnig kvótanum tiltölulega auðveldlega. Fiskurinn var víðast hvar í tökustuði og nægði að hvíla hylina í stuttan tíma fyrir næstu töku. Ég heillaðist mikið af Setbergsá og verð að viðurkenna að hún kom mér skemmtilega á óvart og ég brosi allan hringinn þegar ég hugsa um þessar vaktir sem ég rölti um bakka hennar.

 

 


Dunká á Skógarströnd

Dunká er um 10km í átt að Stykkishólmi vestur með Snæfellsnesi, frá afleggjaranum við Haukadalsá þjóðvegi 60, rétt áður en komið er inn í Búðardal. Áin er skemmtileg og hentar bæði vel til flugu- og maðkaveiði. Ég hitti á ána í skemmtilegu vatni, reyndar var fyrsta vaktin frekar blaut og of mikið vatn en hún sjatnaði fljótt og morguninn eftir var heldur betur veisla. Fiskur um allt og í tökustuði.

Neðri Bæjarfoss


Staðará á Súganda

Frábær dagur í Staðará á Súganda. Áin Staðará er rétt fyrir utan Suðureyri og má nálgast veiðileyfi á bænum Bæ, hjá Kalla og Ingibjörgu. 3 laxar komu á land og einn slapp. Nóg af fiski er í ánni.

Staðará er nálægt Suðureyri og tekur örfáar mínútur að keyra á milli. Ekki er veiðihús og því þarf að finna gistingu á nálægum stöðum. Hægt er að mæla með Fisherman á Suðureyri en þar er líka ágætt kaffihús og veitingastaður. Um 15 mínútur tekur að keyra frá Ísafirði á Suðureyri og aðrar 5-7 mínútur að Staðará. Vegurinn frá bænum upp í dalinn er þannig séð fær flestum slyddujeppum en þó ber að aka rólega því steinar eru hér og þar í veginum og stutt að ganga í helstu hyli.

Veiðileyfin er að mínu mati mjög lág enda er ekki skortur á fiski í ánni.

Suðureyri og Staðará


Hlíðarvatn í Selvogi

Skrapp í örskotsstund í Hlíðarvatn í Selvogi og það var gaman. Fékk 8 bleikjur á um 4 tímum í grenjandi rigningu allan tíman. Hirti fjórar og voru þær 38, 40, 41 og 45 sm langar. Fékk nokkur högg að auki en missti enga í þetta skiptið sem ég er nú barasta nokkuð ánægður með. Þær töku púpur með svörtu og hvítu í, brúnar, peacock, Pheasant tail midge fluguna sem ég hef verið að hnýta og eitthvað fleira. Í raun tóku þær allt sem ég setti undir þannig að það er erfitt að benda á eina flugu. Ég fékk 2 bleikjur í Botnavík, 2 í Innranefi og 4 í Hjalltanga. Ég var einnig lengsta tímann í Hjalltanga því þar er gott að sitja og kasta Smile Skemmtilegur dagur og verst að hafa ekki lengri tíma og betra veður, en svona er þetta nú.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband