Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Arnarvatnsheiði - Dagar 19, 20, 21 og 22.

Jæja, þá er árlegri veiðiferð félaganna frá Patró lokið. Vorum fimm talsins í A-bústaðnum við Arnarvatn stóra á norðanverðri heiðinni. Veiddum að sjálfsögðu Skammánna, eitthvað í Arnarvatninu sjálfu, Grandalónin og auðvitað Austurá. Að auki rölti ég Geirlandsánna dálítið ofantil.

Veðrið framanaf var hundleiðinlegt, sterkur vindur að norðaustan og kalt. En inn á milli smá skot með þokkalegu veðri. Á þessum tíma er greinilega betra að vera með maðka og makríl. Menn týna upp eitthvað af urriða meðfram strandlengjunni við Arnavatn stóra á þennan hátt, sérstaklega þegar líður á kvöldið. Við hittum hjónin Hólmfríði og Jón við Sesseljuvík og voru þau þá búið að fá eina 7-10 fiska á tveimur tímum og þar af einn ansi vænan, allavega 7 pund myndi ég giska á.

Hólmfríður Eins og sjá má þá eru þarna all vænir fiskar og það tók hana Hólmfríði um 40-50 mínútur að landa þessum.

Raggi og Danni komu með mér úr bænum á þriðjudeginum en Þórarinn og Rúnar hittust á Laugarbakka og fóru upp á jepplingnum hans Rúnar, við vorum því fimm í 3 daga, eða frá miðvikudegi fram á laugardag. Ferðin var góð og gekk vel að flestu leyti öðru en veiði :)

Danni setti í einn mjög vænan, en missti eftir um klukkutíma þegar hann datt í Austuránna. Ég veit að hann mun missa svefn eitthvað fram eftir sumri vegna þessa atburðar enda um mjög stóran fisk að ræða.

Settist niður við einn af uppáhalds hyljunum við Austuránna og tók upp smá vídeóblogg.

 


Hlíðarvatn í Selvogi - Dagur 18

Var boðið að kíkja í Hlíðarvatn í dag, eitt þekktasta bleikjuvatn landsins. Árni Árna hjá Árvík var með lausa stöng sem hann gat ekki nýtt og því var brunað að morgni dags um Þrengslin og inn að Selvogi.

Hlíðarvatn er vel þekkt meðal veiðimanna og bleikjan þar getur verið mjög væn. Ég prófaði nýja línu í dag, Scientific Angler -  Sharkskin Trout #6. Mjög góð lína sem fellur fallega niður og er ekki með óþarfa smelli eða læti. Afskaplega nett og góð lína.

Veiðin gekk ágætlega í dag, setti í 15 og hélt 9 bleikjum. Gekk best í Botnsvík, við bakkann sem liggur að Réttarnesi. Það var slatti af fólki að veiða og flestir fengu ágætis kropp, svona 5-10 fiska að ég held.

Athugasemd: Auðvitað gleymdi ég að tala um flugurnar. Þær tóku nánast eingöngu Pheasant Tail nr. 16, þyngda. Ég var með þurrflugu, peacock #16 í miðjunni og Pheasant Tail #16 fremst. Ca 1 og 1/2 stangarlengd í taum. Ég myndi segja #16-#18 í brúnu, það er málið í Hlíðarvatni í dag.

vid01407.jpgÁgætis skammtur á grillið.


Græjurnar

Jæja, það er varla hjá því komist að fjalla aðeins um hvaða græjur maður er að nota í veiðinni, því það skiptir miklu máli að mínu mati að þetta sé í réttum hlutföllum svo gaman megi hafa af. Þar á ég eftir að læra mikið enda heill frumskógur af dóti í boði.

Í lax og birting nota ég gamla sjöu (9,5 fet) sem ég keypti í Vesturröst, þetta er svona 15.000 kr. kit, stöng, hjól og lína. Held hún heiti Lureflash, en man það samt ekki. Samt virkar þetta vel og ég er búinn að veiði fullt af fiski þá stöng. Stærsti sem ég hef tekið var 73cm lax úr Syðri-Brú, sem var einnig Maríulaxinn minn. Ég get ekki fullyrt að ég hefði ekki veitt meira með betri græjum en ég er sáttur. Nota oft hálfsökkvandi LOOP línu sem ég fékk í verðlaun á skemmtikvöldi í SVFR, svo hrikalega gott að kasta henni í vindi og einnig þegar þarf að sökkva flugunni. Annars er ég bara með þessa venjulegu gulu flotlínu sem fylgdi með hjólinu. Þyrfti að fjárfesta í nýjum flotlínum fljótlega, tek að mér að prófa Wink

Í flestan silung nota ég Sage SLT fjarka (9 fet )með Scierra CTC hjóli og skotlínu, nema þegar mjög hvasst er, þá fer ég í sjöuna. Þessi stöng er dásamleg og hjólið frábært. Stærsta sem ég hef fengið er 6 punda urriði í Austurá á Arnarvatnsheiði, missti reyndar stærri, en 6 punda er sá stærsti sem ég hef náð. Það var rosalega skemmtileg veiði. Þetta er afskaplega nett og þægileg stöng, gott að kasta með henni, virkar eins og framlenging af hendinni.

Svo er það auðvitað bíllinn. Veiðibíllinn er 1999 árgerð af Nissan Terrano II, með 33" dekk. Hann er 7 manna en ég tek oft öftustu sætaröðina úr og þá er ansi mikið pláss. Mér áskotnaðist nýlega plast fyrir vöðlur, skó og slíkt til að leggja í afturhlutann og það er algerlega frábært dæmi, því oft vill lykt festast í teppum og sætum.

Þetta eru semsagt svona næstum "Vintage" græjur, nema auðvitað Sage stöngin og Scierra hjólið (þó jafnvel líka) en þetta þarf ekki allt að kosta mánaðarlaun til að hafa gaman af. Meira máli skiptir að vera vel undirbúinn og hafa góðan félagsskap og njóta þess að vera lifandi.


Húseyjarkvísl III - Dagur 17

Úff, hundleiðinlegt veður í allan dag, rok og vindáttin að breytast, gekk í vestan eða sv. átt, þekki ekki Skagafjörðinn nógu vel til að vita hvernig fjöllin fara með áttirnar hérna, gæti hugsanlega hafa verið hrein sunnan átt líka, loksins þegar innlögnin hætti þá fór þetta svona :(

Þegar líða tók á daginn fór að rigna, ekki það að ef vindurinn væri minni þá væri það í fínu lagi en ekki bæði saman.

Nennti ekki að veiða mikið í þessu veðri, náði samt nokkrum ágætum, stærsti 48cm, ansi flottur fiskur, hélt fyrst að þetta væri lax því hann tók svo vel í, en svo kom í ljós að hann hafði misst af flugunni og ég húkkaði hann undir annað tálknið. Átakið verður svo miklu þyngra þannig, plataði mig ansi vel, hélt ég væri kannski með laxinn sem ég missti þarna í gær. Þetta var semsagt á veiðistað nr. 15, síðan færði ég mig uppeftir og tók tvo frekar littla við gömlu brúnna. Danni sá þar eitthvert flykki, hélt það væri lax, þannig að við prófuðum aftur það svæði, en bara puttar og rok ásamt smá vætu :/

Henti saman smá vídeói af veiðistað nr. 15 þar sem ég missti drekann!


Húseyjarkvísl II - Dagur 16

Jæja, nú er þriðjudagur og annar dagurinn í Húseyjarkvísl. Veiðin gekk ágætlega í dag, hélt áfram að leika mér með þurrflugurnar, náði 11 urriðum, flestum í minni kantinum þó. Setti í lax eða sjóbirting á svæði 15, hann tók rauðan francis tvíkrækju gullkrók. Missti eftir stutta en mjög snarpa viðureign, hann bókstaflega reif sig lausan. Höggið var svakalega þungt og samt var ég með sjöuna og intermediate línu. Man ekki eftir svona klikkuðum fiski áður. Hann hreinsaði sig tvisvar alveg brjálaður, reif alveg brjálað í línuna og lét sig svo hverfa. Ég stóð eftir með mikinn hjartslátt og alveg svakalega vonsvikinn .) En jafnaði mig fljótt.

cimg0826.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

51cm hrygna úr Húseyjarkvísl.


Húseyjarkvísl - Dagur 15

Mánudagurinn 7.júní, byrjuðum að veiða í Húseyjarkvísl, skruppum í tvo tíma á veiðistað nr. 10, falleg beygja í ánni með góðu skjóli frá hól norðan megin við, þar eru sumarbústaðir og trjárækt. Mjög fallegur veiðistaður og gjöfull. 

Ég setti undir þurrflugu nr. 16, einfalda með grissly fjöður og peacock vafningi og sú virkaði. Á tveimur tímum fékk ég tvo urriða yfir 50cm og nokkra minni. Allt flottar yfirborðstökur í ágætu veðri, ekki slæmt.

cimg0822.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

54cm urriði úr veiðistað nr. 10 í Húseyjarkvísl í Skagafirði.

 


Sléttuhlíðarvatn - og lækur - Dagur 14 í veiði

Fórum af Skagaheiðinni yfir að Hrauni við Sléttuhlíð. Sléttuhlíðarvatn er í veiðikortinu, en Danni var þarna í sveit frá 6 ára aldri og var síðast vinnumaður á 17. ári.

Fórum út á báti en fengum bara litla fiska og prófuðum því lækinn sem rennur úr vatninu. Danni á góðar minningar úr læknum því þarna byrjaði hann að veiða sem mjög ungur maður, þá var það maðkurinn sem átti vinninginn :)

Fékk einn fínan urriða í læknum og svo fórum við yfir í Húseyjarkvísl og tókum við veiðikofanum, sáum fiska undir brúnni við þjóðveg 1 .) Þetta byrjar vel.


Skagaheiðin - Dagur 13 í veiði!

Skrapp með Danna á Skagaheiðina í leiðinni í Húseyjarkvísl í Skagafirði. Fórum upp hjá Ketu, svakalegur vegur, tók 45mín að keyra 5,5km. Stoppuðm við Selvatn og gerðum ágæta veiði undir nóttina í þvílíkri þoku. Sváfum í bílnum þar sem við fundum ekki stað til að tjaldi en það var alveg ágætt.

Um morguninn héldum við svo áfram í Selvatni og lentum í algerlega fáránlegri veiði, vatnið kraumaði af bleikju, fengum örugglega vel yfir 70 bleikjur og 3 fallega urriða, hirtum það stærsta, mjög flottir fiskar.

 Veiddum til að verða þrjú um daginn og brunuðum svo að Hrauni í Slétturhlíð þar sem Danni var í sveit. 

Meira um það á næsta degi 14.


Meðalfellsvatn - Dagur 12 og hálfur!

Skrapp eftir kvöldmat með Bubba í Meðalfellsvatn. Tók með mér tvíbyttnuna sem er alger snilldargræja í fluguveiði. Veiddi 9 urriða og missti annað eins, erfitt að vera fljótur að bregða við þegar maður er að róa :) Missti einn mjög vænan í löndun, þar sem netið var orðið fullt af fisk, verð að muna að hafa með mér netapoka næst! Eins þarf ég að græja stangarhaldara á bátinn, tómt vesen að hafa hann ekki. Veðrið var mjög gott og lægði með kvöldinu. Það er hellingur af fiski í vatninu og ég hefði átt að koma með lágmark 20 stk. í land. Fiskurinn var frekar lítill en inn á milli alveg ágætir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband