Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Ævintýrahestaferð með flugustöngina á bakinu - dagar 9 til 17

Þann 8. júlí sl. var upphafið að einhverju því skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina. Ég fór í hestaferð í kringum (og yfir) Drangajökul, og það sem meira er, Joakims flugustöng nr. 4 fékk að fljóta með.

Þessi hestaferð byrjar í Skjaldfannardal á Snæfjallaströnd á bænum Laugalandi og farið er norður yfir jökulfjörðinn Kaldalón á fjöru (ansi magnað) og gist í Dalbæ. Ég prófaði auðvitað að renna í Selá í Skjaldfannardal (nema hvað) áður en lagt var af stað. Þar er von á bleikju og stöku laxi en mest hefur verið veitt í net á þessum slóðum. Það er líka sjóbleikjuá við Dalbæ og minn maður átti góðar stundir við ósinn þegar leið á kvöldið, alveg ótrúlegt útsýni yfir Djúpið og Æðey bara nokkra metra í burtu.

Við TyrðilmýriSíðan er farið frá Tyrðimýri út Snæfjallaströndina, yfir Snæfjallaheiði og ofan í Grunnavík. Þar hittum við fyrir heimamenn, fórum í heita pottinn og að sjálfsögðu var rennt í ánna, sjóbleikjurnar sáust eitthvað en lítið var um tökur og enn of snemmt fyrir alvöru göngur sökum norðanátta og kulda framan af sumri. Áin er frekar nett en mjög skemmtileg og ágætis hylir sem gaman væri að prófa seinna í sumrinu.

Frá Grunnavík var farið yfir í Furufjörð yfir Staðarheiði þar sem við gistum í tjaldi. Það þarf varla að bæta við að þar er auðvitað sjóbleikjuá :) Við vöknuðum við kaffiilminn hjá leiðsögumanninum okkar honum Þórði Halldórssyni sem stýrir búi ásamt Dúnu konunni sinni í Laugalandi. Honum til aðstoðar var snillingurinn hann Sveinn Ragnarsson sem býr í Reykhólahreppi. Við héldum áleiðis úr Furufirði yfir Svartaskarð, ofan í Þaralátursfjörð, yfir Reykjafjarðarháls og enduðum í Reykjafirði. Reykjafjörður er dásamlegur staður, með frábæra sundlaug og heitan pott (það er vel metið eftir 10 tíma á hestbaki). Ég reyndi mig dálítið við ánna þarna en sjóbleikjan var ekki byrjuð að ganga. Helsti veiðistaðurinn er ósinn.

Við fórum síðan með ferjunni yfir á Hornbjarg og skoðuðum bjargið og fuglana frá sjó, það var einstaklega skemmtileg upplifun.

img_2251.jpg Við fórum síðan frá Reykjafirði yfir Geirólfsgnúp, niður í Bjarnarfjörð (rosalegt útsýni) og áfram yfir að Dröngum. Það er svakafalleg á austan megin í Bjarnarfirði sem ég náði ekki að prófa, en langaði mikið :) En það er líka nett og fín á við Dranga sem ég náði að leika mér í og við hana er örlítil náttúrulaug sem hægt er að leggjast í og jafnvel rúlla sér í ánna af til til að kæla sig. Toppurinn hefði auðvitað verið að kasta flugunni úr lauginni en mig vantað hugmyndaflugið þarna um kvöldið til að prófa það :)

Síðasta daginn fórum við svo frá Dröngum, upp Meyjardal og yfir Drangajökul niður í Skjaldfannardal þar sem ferðin byrjaði. Það var ansi magnað að sitja hest sem var að hoppa yfir jökulsprungu í 770 metra hæð og þoku. Ævintýrið var ekki síst á þeirri leið.

Það verður að segjast eins og er að í þessari ferð upplifði ég gamlan draum um hestaferð með stöngina á bakinu. Það eru ekki til orð sem lýsa því hversu gríðarlega mikil forréttindi það eru að fá að ferðast þessa leið, á góðum hestum, með frábærum leiðsögumönnum og skemmtilegum ferðafélögum, og að fá að kasta í allar ár (eða nánast, það vantaði eina) á leiðinni var mjög gaman. Það er allt of langt að fara í nánari smáatriði í þessari bloggfærslu því þetta voru 9 dagar af ævintýri þar sem alltaf var eitthvað nýtt og spennandi að gerast. 

Þetta er ferð sem allir ættu að fá að upplifa.

Hægt er að sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Svaðilfara.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband