Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011
Selsvatn Mjóafirði - Dagur 8
30.6.2011 | 14:34
Var í heimsókn í Heydal í Mjóafirði í Ísafjarðadjúpi og ætlaði mér að heimsækja þar vatn sem ber heitið Ausuvatn, en sökum árferðis er það ennþá undir ís. Ég skrapp því að næsta bæ og heimsótti hann Finnboga í Hörgshlíð sem benti mér á vatn þar fyrir ofan sem heitir Selsvatn. Slóðin þar er reyndar dálítið erfiður og mæli ég með jeppum í það, eða hreinlega að ganga upp þar sem þetta er ekki langur spotti.
En vatnið og umhverfi þess er fallegt og mjög veiðilegt. Þarna er auðveldlega hægt að tjalda ef til þess fæst leyfi. Ég var þarna í ansi miklu roki vægast sagt en er alveg einarður um að heimsækja svæðið aftur. Ég byrjaði á að ganga með austurhluta vatnsins og sá nokkra mjög veiðilega staði en þarna ganga út skagar og er töluvert dýpi við þá. Ég reyndi mig svo við einn þeirra, prófaði Krókinn með tökuvara og lætin í urriðanum voru svo mikil að ég fékk strax yfirborðstöku á tökuvaran, síðan strax á eftir á Krókinn. Ekki amaleg byrjun þar
Ég prófaði síðan Mýsluna og fékk fljótlega töku, það lágu því tveir ágætir urriðar á svona hálftíma.
Myndbandið sínir skagann ágætlega og hvar þeir voru að taka, en mikið held ég að sé gaman þarna á rólegum degi veðurfarslega séð. Það er alveg fullt af vötnum í Djúpinu en einnig margargóðar ár. Ég er til dæmis að fara í Ísafjarðará upp úr miðjum ágúst og er mjög spenntur. En myndbandið er hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vatnasvæði Lýsu á Snæfellsnesi - Dagur 7
21.6.2011 | 16:11
Kom við hjá Gunnari í Lýsudal í gærkvöldi. Svæðið leit mjög vel út og tökur út um allt. Gunnar sagði að mjög lítið væri búið að veiða það sem af er sumri því veðrið hafi verið svo erfitt (eins og annar staðar á landinu :) ). Svæðið er því í raun óveitt það sem af er sumri.
En byrjum á staðsetningunni:
Eins og sjá má eru Lýsuvötn staðsett sunnan til á nesinu um það bil miðju.
Hægt er að fá gistingu þarna rétt hjá og einnig er tjaldstæði við sundlaugina á Lýsuhóli. Gunnar veiðivörður getur veitt upplýsingar um það í síma: 893-4515.
Þetta eru nokkur vötn og ár sem skipt er í silunga- og laxasvæði.
Það er merkilegt með Lýsuvötn að það er hægt að veiða allar tegundir ferskvatnsfiska sem finnast við Ísland: lax, bleikju, sjóbleikju, urriða og sjóbirting
Hérna má svo sjá staði þar sem ég varð var við mikið líf.
Á þessari mynd má sjá hvar áin fellur í (þar sem myndbandið er tekið, en alls komu á land 13 bleikjur og 2 sjóbirtingar á því svæði). Síðan var mikið líf þar sem útrennslið er, ég sá stóra fiska þar en einungis minni komu á færið.
Síðan er mjög góður veiðistaður við stóran stein í vestara vatninu, hann er mjög áberandi og auðvelta að vaða að honum.
Ég ætlaði að veiða morgunvaktina líka en þurfti frá að hverfa vegna annarra verkefna og því bíður laxinn sem ég sá í gærkvöldi betri tíma :)
Myndband frá Vatnasvæði Lýsu.
Eins og sést eru þetta ágætis bleikjur sem komu á land í gærkvöldi og meðalþyngdin mjög góð. Lítið var af smælki sem fékk líf, þó eitthvað og nokkrar bleikju runnu af. Þær tóku flestar Krókinn en nokkrar Peacock með appelsínugulum kúluhaus.
Það er margt framundan í veiðinni, m.a. ævintýraferð á hestbaki að leynivatni í Ísafjarðardjúpi og margt fleira spennandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dagar 3-6 - Laxá í Laxárdal
7.6.2011 | 08:26
Laxá sem rennur um Mývatnssveit og Laxárdal er líklega ein besta urriðaá í heimi. Um það eru margir sammála, ekki síst erlendir gestir. Það eru auðvitað til margar skemmtilegar ár sem geyma fallega urriða, ein þeirra er til dæmis að mínu mati Austurá sem rennur norður úr Arnavatni stóra á Arnarvatnsheiði. En ég held að ég verði að vera sammála því mati að Laxá geri sterkt tilkall til titilsins.
Þessir dagar eru bundnir við Laxárdalinn en Mývatnssveitin bíður mín án efa með sína fallegu þurrfluguhyli.
Laxá í Laxárdal.
Áin sem slík er mjög fjölbreytt og hef ég ekki séð hana alla, en þau svæði sem ég hef prófað bjóða upp á flesta tegund veiði. Mörg þessara svæða bjóða upp á skemmtilega straumfluguveiði en uppstreymisveiðin held ég að geri þessa á að ógleymanlegri reynslu enda eru þar endalausir möguleikar.
Svo má auðvitað ekki gleyma þurrflugunni þegar áin fer að hitna en þarna eru margir pollar og hylir sem gaman væri að kasta þurrflugu á.
Við skulum byrja þessa lýsingu á staðsetningunni en Laxá í Laxárdal er um 90 km austur af Akureyri. Keyrt er sem leið liggur austur framhjá Goðafossi og beygt norður hjá Laugum, framhjá afleggjaranum að Laxárvirkjun og upp í Laxárdal. Veiðihúsið er austan megin árinnar örfáa metra ofan við brúnna. Sjá kort:
Á kortinu má sjá hið fornfræga biskupssetur Grenjaðarstaði, en þar er mjög skemmtilegt safn í dag.
Hérna er svo mynd af brúnni og veiðiheimilinu.
Einnig sést ágætis yfirlitsmynd af veiðistöðunum Soginu sem er beint fyrir sunnan brúnna og Birtingsstöðum, en það er flóinn sem veiðihúsið liggur austan megin við. Það eru nokkrir merktir veiðistaðir á Birtingsstaðaflóanum og meðal annars beint fyrir framan veiðihúsið.
Hérna sést hluti af Laxárvirkjun á hægri hönd en gott útsýni er til norðurs yfir Aðaldalinn og út á flóann.
Varastaðahólmi.
Við byrjuðum veiðar á Ljótsstaðasvæðinu sem er vestan meginnar upp með dalnum í suður, þ.e. í áttina að Mývatnssveit. Laxá rennur semsagt til norðurs. Við fórum upp að Varastaðahólma, þess ber að geta að botnin á ánni er frekar grýttur þarna og dálítill straumþungi. Það er því gott að vaða rólega og best að byrja vel ofan við hólmann, vaða beint út þar til maður er kominn fyrir hann miðjan og þaðan niður, og svo sömu leið til baka. Ég byrjaði að kasta í flúðirnar austan megin og fékk fljótlega töku eins og sést á þessu myndbandi en hann tók Svartan Nobbler #10. Ég setti saman eitt myndband með nokkrum tökum og smá eftirmála sem er hér:
Glæsilegur 55sm urriði sem tók vel á móti mér og ævintýrið formlega byrjað. Bestu veiðistaðirnir við Hólmann eru sagðir austan megin og svo niður eða norður af hólmanum en þar eru gullfallegir veiðistaðir og auðvelt að vaða eina 20-30 metra.
Grundará.
Við héldum svo sem leið lá aðeins neðar í ánna þar sem heitir Grundará en hún er smá spræna sem kemur beint niður af fjallinu vestan megin. Matti benti mér á að prófa að veiða fyrir ofan þar sem Grundaráin rennur í Laxá og það gekk eftir. Strax í 4 kasti var fallegur urriði á og sporðdansaði fram og til baka fyrir mig. Grundará er feykiskemmtilegur upstream staður.
Við sáum svo fleiri fiska rétt ofar við bakkann og Bubbi húkkaði einn stórfurðulegan 50sm sem missti af flugunni en fékk hana í kinnina. Sá var slánalegur og með skaddaða sporðblöðku. Hann var lengi að jafna sig þó löndunin hafi ekki tekið meira en svona 3-4 mínútur. Þegar við vorum búnir að sleppa honum ákváðum við að kveðja þennan veiðistað í bili, þrátt fyrir að hafa ekki kastað á bakkan fyrir neðan ánna, en það er mjög veiðilegur staður.
Við prófuðum nokkra fleiri staði þetta kvöld en þetta var ágætt og við fórum snemma í veiðihúsið. Það var óhagstætt veður á fimmtudeginum og framan af föstudeginum, mikill vindur og kalt þannig að það var ekki beint hvetjandi til afreka. Við tókum því frekar rólega og vorum meira að skoða staði og kanna ánna. Ég sá þó mikið af fiski bæði kvöldin og missti einn alveg rosalegan á fimmtudagskvöldinu í Halldórsstaðastreng. Sá brunaði niður strenginn eftir smá dans og það var engu tauti við hann komið, sleit 12 punda tauminn eins og tvinna. Þvílíkur kraftur. Við settum í nokkra flotta á föstudagskvöldinu og ég náði einum 65sm höfðingja í sama streng, en hérna má sjá tökustaðina sem ég fann, en líklegt er að það verði þarna fiskur um allt um leið og áin hlýnar aðeins.
Sjá má tökustaðina, sá fyrri en ca. 1/4 út af Halldórstaðahólma en sá seinni geymdi marga fiska og hann er á nokkus konar gatnamótum tveggja strengja. Það er sandrif í miðjum strengnum og fiskurinn tók oftast á miðju sandrifinu þar sem efri strengurinn hættir og sá neðri byrjar.
Þetta finnst mér einn skemmtilegasti veiðistaðurinn af þeim svæðum sem ég prófaði í ferðinni. Þarna fann ég alltaf fisk, og þrátt fyrir að missa nokkra fallega var þetta alveg geggjað skemmtilegt. Halldórsstaðastreng var auðvelt að vaða en maður sökk aðeins í sandinn fyrir miðjunni.
Það eru of margir staðir svo hægt sé að fjalla um þá alla hérna. Ég hef tekið fyrir þá sem mér fannst skemmtilegastir en áin breytist örugglega mikið þegar hlýna fer í veðri og ég tala ekki um þegar maður fer að sjá fiskinn vaka.
Nokkur atriði er vert að hafa í huga. Þetta er stórt svæði og það getur vaxið manni í augum. Það er mikilvægt að spyrja vel og merkja góða tökustaði inn á veiðikortið. Reyna að fá eins nákvæmar leiðbeiningar og hægt er. Ég spyr alla sem ég hitti í svona ferðum og ég held að menn hafi gaman af að deila upplýsingum og þekkingu.
Takið með nóg af flugum, sértaklega þyngdum púpum eins og Pheasant Tail, Peacock, Króknum, svörtum vinylribb, rauðormi og öðrum slíkum. Þetta er fljótt að hverfa í grýttum hyljum. Eins kom sér vel að vera með þjöl til að laga til krókinn eftir festu, alveg bráðsniðugt og sparar fullt af flugum.
Veiðiheimilið að Rauðhólum er ágætt. Það er dálítið gamalt en mér leið vel þarna og ráðstkonurnar Gunna og Inga voru til fyrirmyndar og almennilegar í alla staði. Það er þyngri matur í miðdagsrétt en léttari um kvöldið sem mér finnst mjög gott fyrirkomulag. Heiti potturinn er fínn og það er gufubað sem er í fínu lagi en þarf að hita upp og það tekur um klukkustund.
F.v. Erla, Inga og Gunna að undirbúa komu nýrra holla. Matsalurinn og setustofan eru fyrir miðju húsi en tvær álmur með herbergjum eru sitt hvoru megin, til norðurs og suðurs.
Erla og Hallgrímur reka veiðiheimilin að Rauðhólum og Hofi í Mývatnssveit en það eru um 45 km á milli þeirra eða um hálftíma akstur.
Hægt er að kaupa ágætt úrval af bæði straumflugum og púpum á báðum stöðum og það bjargaði mér alveg :)
Takk kærlega fyrir frábæra daga í Laxárdalnum og sjáumst vonandi fljótlega aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dagur 2 - Laxá í Mývatnssveit
5.6.2011 | 18:50
Jæja jæja, nú er fjörið byrjað. Skrapp í feðgaorlof með Bubba í Mývatnssveitina á þriðjudaginn (31.maí) og fékk að taka í stöng hjá stórveiðimeistara Danna sem var að gera góða hluti ásamt Matta snillingi. Það liðu um það bil 15 mínútur þar til fyrsti fiskurinn hljóp á snærið (2,5 pund)og hann tók svartan nobbler, við Steinbogaey á Hellusvæðinu. Stuttu síðar, eða nákvæmlega í næsta kasti kom svo litli bróðir hans, ca pundari. Ekki slæm byrjun það enda svæðið frábært og nóg af fiski þó það hafi verið heldur kalt. Það dugði ekkert minna en rússaúlpan og 66 norður loðhúfan.
Smá myndband úr Steinbogaey.
Við feðgarnir gistum í Veiðiheimilinu Hofi sem er ágætis staður. Húsið eða húsin eru í eldri kantinum en þarna er allt til alls og matur og stemning með ágætum. Heitur pottur er við húsin. Gott er að benda á að hefð er að taka með sér eigin drykkjarveigar en einnig er hægt að kaupa léttvín og bjór hjá Erlu.
Eins og sjá má er þessi ekki stór, en félagarnir fengu marga góða fiska á svæðinu, sá stærsti um 8 pund að ég held og kom hann úr skurðinum.
Skemmtileg kvöldstund og fyrstu fiskar sumarsins komnir í bókina :) Við lögðum svo að stað eftir góða hvíld niður í Laxárdalinn en meira um það í næstu færslu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)