Arnarvatnsheiði - Dagar 19, 20, 21 og 22.
28.6.2010 | 08:46
Jæja, þá er árlegri veiðiferð félaganna frá Patró lokið. Vorum fimm talsins í A-bústaðnum við Arnarvatn stóra á norðanverðri heiðinni. Veiddum að sjálfsögðu Skammánna, eitthvað í Arnarvatninu sjálfu, Grandalónin og auðvitað Austurá. Að auki rölti ég Geirlandsánna dálítið ofantil.
Veðrið framanaf var hundleiðinlegt, sterkur vindur að norðaustan og kalt. En inn á milli smá skot með þokkalegu veðri. Á þessum tíma er greinilega betra að vera með maðka og makríl. Menn týna upp eitthvað af urriða meðfram strandlengjunni við Arnavatn stóra á þennan hátt, sérstaklega þegar líður á kvöldið. Við hittum hjónin Hólmfríði og Jón við Sesseljuvík og voru þau þá búið að fá eina 7-10 fiska á tveimur tímum og þar af einn ansi vænan, allavega 7 pund myndi ég giska á.
Eins og sjá má þá eru þarna all vænir fiskar og það tók hana Hólmfríði um 40-50 mínútur að landa þessum.
Raggi og Danni komu með mér úr bænum á þriðjudeginum en Þórarinn og Rúnar hittust á Laugarbakka og fóru upp á jepplingnum hans Rúnar, við vorum því fimm í 3 daga, eða frá miðvikudegi fram á laugardag. Ferðin var góð og gekk vel að flestu leyti öðru en veiði :)
Danni setti í einn mjög vænan, en missti eftir um klukkutíma þegar hann datt í Austuránna. Ég veit að hann mun missa svefn eitthvað fram eftir sumri vegna þessa atburðar enda um mjög stóran fisk að ræða.
Settist niður við einn af uppáhalds hyljunum við Austuránna og tók upp smá vídeóblogg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hlíðarvatn í Selvogi - Dagur 18
15.6.2010 | 23:20
Var boðið að kíkja í Hlíðarvatn í dag, eitt þekktasta bleikjuvatn landsins. Árni Árna hjá Árvík var með lausa stöng sem hann gat ekki nýtt og því var brunað að morgni dags um Þrengslin og inn að Selvogi.
Hlíðarvatn er vel þekkt meðal veiðimanna og bleikjan þar getur verið mjög væn. Ég prófaði nýja línu í dag, Scientific Angler - Sharkskin Trout #6. Mjög góð lína sem fellur fallega niður og er ekki með óþarfa smelli eða læti. Afskaplega nett og góð lína.
Veiðin gekk ágætlega í dag, setti í 15 og hélt 9 bleikjum. Gekk best í Botnsvík, við bakkann sem liggur að Réttarnesi. Það var slatti af fólki að veiða og flestir fengu ágætis kropp, svona 5-10 fiska að ég held.
Athugasemd: Auðvitað gleymdi ég að tala um flugurnar. Þær tóku nánast eingöngu Pheasant Tail nr. 16, þyngda. Ég var með þurrflugu, peacock #16 í miðjunni og Pheasant Tail #16 fremst. Ca 1 og 1/2 stangarlengd í taum. Ég myndi segja #16-#18 í brúnu, það er málið í Hlíðarvatni í dag.
Bloggar | Breytt 16.6.2010 kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Græjurnar
11.6.2010 | 12:54
Jæja, það er varla hjá því komist að fjalla aðeins um hvaða græjur maður er að nota í veiðinni, því það skiptir miklu máli að mínu mati að þetta sé í réttum hlutföllum svo gaman megi hafa af. Þar á ég eftir að læra mikið enda heill frumskógur af dóti í boði.
Í lax og birting nota ég gamla sjöu (9,5 fet) sem ég keypti í Vesturröst, þetta er svona 15.000 kr. kit, stöng, hjól og lína. Held hún heiti Lureflash, en man það samt ekki. Samt virkar þetta vel og ég er búinn að veiði fullt af fiski þá stöng. Stærsti sem ég hef tekið var 73cm lax úr Syðri-Brú, sem var einnig Maríulaxinn minn. Ég get ekki fullyrt að ég hefði ekki veitt meira með betri græjum en ég er sáttur. Nota oft hálfsökkvandi LOOP línu sem ég fékk í verðlaun á skemmtikvöldi í SVFR, svo hrikalega gott að kasta henni í vindi og einnig þegar þarf að sökkva flugunni. Annars er ég bara með þessa venjulegu gulu flotlínu sem fylgdi með hjólinu. Þyrfti að fjárfesta í nýjum flotlínum fljótlega, tek að mér að prófa
Í flestan silung nota ég Sage SLT fjarka (9 fet )með Scierra CTC hjóli og skotlínu, nema þegar mjög hvasst er, þá fer ég í sjöuna. Þessi stöng er dásamleg og hjólið frábært. Stærsta sem ég hef fengið er 6 punda urriði í Austurá á Arnarvatnsheiði, missti reyndar stærri, en 6 punda er sá stærsti sem ég hef náð. Það var rosalega skemmtileg veiði. Þetta er afskaplega nett og þægileg stöng, gott að kasta með henni, virkar eins og framlenging af hendinni.
Svo er það auðvitað bíllinn. Veiðibíllinn er 1999 árgerð af Nissan Terrano II, með 33" dekk. Hann er 7 manna en ég tek oft öftustu sætaröðina úr og þá er ansi mikið pláss. Mér áskotnaðist nýlega plast fyrir vöðlur, skó og slíkt til að leggja í afturhlutann og það er algerlega frábært dæmi, því oft vill lykt festast í teppum og sætum.
Þetta eru semsagt svona næstum "Vintage" græjur, nema auðvitað Sage stöngin og Scierra hjólið (þó jafnvel líka) en þetta þarf ekki allt að kosta mánaðarlaun til að hafa gaman af. Meira máli skiptir að vera vel undirbúinn og hafa góðan félagsskap og njóta þess að vera lifandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)