Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013
Ósa í Bolungarvík 2013
29.6.2013 | 23:16
Jæja, fyrsta veiðimyndbandið með hjálp fjarstýrðra upptökutækja eru veruleiki. Ósáin lá best við höggi til að prufukeyra Easy Star II vél með Horizon HD upptökuvél og þráðlausum vídeósendi. Töff stöff og mjög skemmtilegt að sjá veiðisvæðin frá þessu sjónarhorni. Nú er bara að halda áfram að þróa þetta og reynslan mun væntanlega auka gæðin þegar fram líða stundir.
Skrapp með nafna mínum seinni vaktina og því miður voru veðurskilyrðin ekki alveg upp á sitt besta, rok og rigning, en við fengum eina væna bleikju og nokkrar sluppu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laxá í Laxárdal - dagur hinna misstu fiska...
28.6.2013 | 14:13
Smá vorkun er í lagi núna, ég missti 3 í röð í Laxárdalnum, allt fiska sem tóku vel í og allir tóku þeir sömu fluguna, Pheasant Tail.
En veðrið var frábært og maturinn í veiðikofanum fínn. Ekki var verra að hitta skvísurnar í Kastað til bata en þær voru þarna að skemmta sér konunglega enda gædarnir ekki af verri endanum, snillingar þar á ferð.
Það var ánægjulegt að koma að upphafi Kastað til bata á Íslandi, en hugmyndin kom upphaflega frá formanni stuðningsfélagsins Stóma árið 2007, honum Kristjáni Frey, sem sýndi mér upplýsingar frá Casting for Recovery sem hefur náð góðum árangri í Bretlandi og Bandaríkjunum, og urðum við ásáttir á að þetta væri nú ansi skemmtileg hugmynd að yfirfæra verkefnið á Ísland. Kastað til bata nafnið kom nú bara sjálfkrafa þegar ég var að skrifa yfirskriftina á kynningu fyrir aðila innan Krabbameinsfélagsins. Ég fór með það sama til hans Halla Eiríks hjá SVFR og tóku þeir höfðingjar mjög vel í þessa hugmynd og hafa stutt verkefnið með dáð síðan. Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins og hún Ragnheiður Alfreðs hélt síðan utan um verkefnið frá árinu 2010 með vali á þátttakendum. Samhjálp kvenna tók verkefninu mjög vel strax í byrjun og sá þvílíkt tækifæri þetta er fyrir þær konur sem hafa farið í slíka meðferð og má segja að framsýni forsvarsmanna félagsins hafi sannarlega gefið af sér.
Furðulegt nokk, þá var þetta kveikjan að því að ég fór að veiða á flugu en hann Sigurður Pétursson málari átti stóran þátt í því enda studdi hann við upphaf verkefnisins með því að halda fluguhnýtinganámskeið í salarkynnum Krabbameinsfélagsins með stuðningi SVFR árið 2007 ef minnið svíkur mig ekki.
Kastað til bata er árangursrík leið til þess að hjálpa konum að byggja upp vöðva eftir meðferð við brjóstakrabbameini og fluguköst hafa reynst ákaflega góð leið við slíka enduruppbyggingu. Ég vona sannarlega að ég eigi eftir að rekast á framtíðarhópana því þar fara persónur sem kunna að njóta lífsins og árbakkans á við reyndustu veiðisnillinga.
Ég man enn þegar ég var að hringja og óska eftir stuðningi við verkefnið, fólk varð ansi hissa en kom nú aðeins til þegar málin voru útskýrð :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
EasyStar II með upptökuvél og þráðlausum vídeósendi
28.6.2013 | 13:53
Jæja jæja, það verður gamana að kippa þessari elsku með í veiðina í framtíðinni. Ég hef verið að þróa og smíða fjölhreyflavélar en þær eru bundnar við stuttan flugtíma og svo hefur verið skortur á góðum vídeósendum og sjálfstýringabúnaði sem ég er sáttur við. Það mál er því í smá bið þar til ég fæ nýja varahluti og get forritað að mínum smekk.
En þessi elska gæti verið svarið við yfirlitsmyndum og skemmtilegu sjónarhorni á veiðisvæðin sem ómögulegt er að ná með hefðbundinni tækni. Hún er að vísu dálítið viðkvæm fyrir vindi en það má laga með því að setja í hana sjáflstýringabúnað sem "leiðréttir" flugið og hjálpar til við stöðugleika. Einnig er í henni smá víbringur sem ég þarf að komast fyrir eða setja myndavélina á púða. En þetta eru smáatriði, flugþolið er gott og auðvelt að fljúga henni með vídeógleraugunum, nú er bara að þora að fara í einhverja hæð :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laxá í Aðaldal
24.6.2013 | 20:03
Laxá í Aðaldal 5-6. júní 2013
Það var óumdeilanlega slatti af vatni í ánni þetta vorið, svo mikið er víst en lengi er von eins og sagt var einhvern tíma. Ég þurfti austur á Egilstaði sækja bát í byrjun júní sem ég hafði nýlega fest kaup á til að nota í sjóstangveiði (algerlega stórskemmtilegt sport) og því tilvalið að kippa Halla bróðir með og skjótast í Aðaldalinn á leið heim. Við gistum á Lynghóli sem er MJÖG skemmtilegt veiðihús með öllu til alls fyrir samhenta hópa.
Skemmst er frá því að segja að aðstæður voru gjörólíkar því sem ég hafði kynnst árið áður, fiskur ekki farinn að vaka, mjög dreifður og gríðarlegt vatn enda allt bókstaflega á floti í dalnum. Við byrjuðum í Staðartorfu og urðum helst varir í víkinni við bílastæðið, sjá mynd. Þar voru nokkrar tökur og einn og einn læddist á land. Fiskurinn tók samt mjög grannt og helst hvítar túpur á borð við Black ghost varianta.
Næsta vakt var svo í Múlatorfu og væntingarnar voru helst til miklar því við urðum ekki varir við nema einn og einn fisk í kvíslunum milli hólmana, en á grynningunum úti í ánni tók hann hvítar túpur, sjá kort. Það var sama sagan og í Staðartorfu að það var bara ein taka á hverjum stað og því finnst mér líklegast að fiskurinn hafi verið mjög dreifður.
Það gerðist skemmtilegur hlutur varðandi veiðihúsið, einhver misskilningur varð á milli mín og skifstofu SVFR þannig að ég taldi mig eiga að vera tvær nætur á Lynghóli og færa mig svo upp í Laxárdal eina nótt, en því var víst öfugt farið. Þannig að þegar við bræður mættum í veiðihúsið seinna kvöldið þá var þar níu mann hópur. Þeir sögðu um leið og ég steig út úr bílnum: "já ert það þú!". Ég varð pínu hissa en þá vildi svo til að þeir lásu bloggið mitt í fyrra um sama svæði, sjá hér, og bókuðu í framhaldinu hjá SVFR. Ég get því að einhverju leiti kennt sjálfum mér um að vera úthýst úr veiðihúsinu en Rauðhólar í Laxárdal eru yndislegur staður þannig að það kom ekki að sök :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)