Laxá í Laxárdal - dagur hinna misstu fiska...

Smá vorkun er í lagi núna, ég missti 3 í röð í Laxárdalnum, allt fiska sem tóku vel í og allir tóku þeir sömu fluguna, Pheasant Tail.

En veðrið var frábært og maturinn í veiðikofanum fínn. Ekki var verra að hitta skvísurnar í Kastað til bata en þær voru þarna að skemmta sér konunglega enda gædarnir ekki af verri endanum, snillingar þar á ferð.

Það var ánægjulegt að koma að upphafi Kastað til bata á Íslandi, en hugmyndin kom upphaflega frá formanni stuðningsfélagsins Stóma árið 2007, honum Kristjáni Frey, sem sýndi mér upplýsingar frá Casting for Recovery sem hefur náð góðum árangri í Bretlandi og Bandaríkjunum, og urðum við ásáttir á að þetta væri nú ansi skemmtileg hugmynd að yfirfæra verkefnið á Ísland. Kastað til bata nafnið kom nú bara sjálfkrafa þegar ég var að skrifa yfirskriftina á kynningu fyrir aðila innan Krabbameinsfélagsins. Ég fór með það sama til hans Halla Eiríks hjá SVFR og tóku þeir höfðingjar mjög vel í þessa hugmynd og hafa stutt verkefnið með dáð síðan. Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins og hún Ragnheiður Alfreðs hélt síðan utan um verkefnið frá árinu 2010 með vali á þátttakendum. Samhjálp kvenna tók verkefninu mjög vel strax í byrjun og sá þvílíkt tækifæri þetta er fyrir þær konur sem hafa farið í slíka meðferð og má segja að framsýni forsvarsmanna félagsins hafi sannarlega gefið af sér. 

Bjarni Höskulds hefur stutt verkefnið frá upphafiFurðulegt nokk, þá var þetta kveikjan að því að ég fór að veiða á flugu en hann Sigurður Pétursson málari átti stóran þátt í því enda studdi hann við upphaf verkefnisins með því að halda fluguhnýtinganámskeið í salarkynnum Krabbameinsfélagsins með stuðningi SVFR árið 2007 ef minnið svíkur mig ekki.

Kastað til bata er árangursrík leið til þess að hjálpa konum að byggja upp vöðva eftir meðferð við brjóstakrabbameini og fluguköst hafa reynst ákaflega góð leið við slíka enduruppbyggingu. Ég vona sannarlega að ég eigi eftir að rekast á framtíðarhópana því þar fara persónur sem kunna að njóta lífsins og árbakkans á við reyndustu veiðisnillinga.

Ég man enn þegar ég var að hringja og óska eftir stuðningi við verkefnið, fólk varð ansi hissa en kom nú aðeins til þegar málin voru útskýrð :) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband