Flekkudalsá í Dölum - Dagar 36, 37 og 38
10.8.2010 | 10:30
Fór í góðum félagsskap í Flekkudalsá í Dölum, nánar tiltekið í Fellasveit. Flekkurdalur og árnar Flekka og Tunguá eru afskaplega fallegar, margir mjög flottir veiðistaðir, það verður að segjast. Ég náði einum en missti 3 laxa, sama óheppnin að elta mig eins og verið hefur undanfarna túra. Ég setti til dæmis í gullfallegan lax í Fljótinu, hyl nr. 14 í Flekku í morgun en flugan losnaði af...Ég hreinlega skil það ekki því ég passa alltaf hnútana mjög vel, geri alltaf tvöfaldan og herði vel. En svona er þetta.
Veðurblíðan var rosaleg alla ferðina, nánast alveg logn og steikjandi hiti og sól, sem sagt hræðilegt laxaveiðiveður... :/ En ferðin var samt sem áður mjög skemmtileg og veiðifélagarnir hressir og skemmtilegir og maturinn alger snilld.
Ég setti saman smá myndband úr ferðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Syðri-Brú, Dagur 35
6.8.2010 | 19:14
Heimsótti einn uppáhalds veiðistaðinn minn, Syðri-Brú í Soginu. Þetta er í raun bara einn veiðistaður, Klöppin sem liggur austan megin við útfallið af Ljósafossvirkjun. Beint á móti er hluti af Bíldsfelli, þeim fræga bleikjuveiðistað en þar fæst einnig mikið af laxi á hverju ári.
Ég hef einhverra hluta vegna aldrei veitt lax á fyrri vaktinni þarna og þannig var það líka í gær en ég missti fimm fiska, reyndar var það að hluta til klaufaskapur í mér, fyrst var ég með fjarkann og tökuvara að reyna við bleikju sem ég hafði séð koma upp öðru hvoru og síðan var ég með fimm punda taum til að athuga hvort það gengi betur, þ.e. hvort sverari taumur styggi laxinn. Ég fékk reyndar töku í fyrsta kasti með þeim taum...en það getur auðvitað verið tilviljun. En sá lax slapp í löndun, það slitnaði úr flugunni þegar hann var kominn hálfur upp á land. Það var ansi svekkjandi.
Það hefði nú kannski borgað sig að taka hann í háfinn þennan :)
Síðan kom auðvitað laxinn sem hélst á og Bubbi tók hann fagmannlega í silungaháfinn og skóflaði honum á land, en það sést á youtube myndbandinu hér fyrir neðan :)
Spurning um að fá sér stærri háf?
Það er alltaf fiskur í Syðri-Brú en það er erfitt að ná honum. En ég hef ekki farið fisklaus heim enn...sjö, níu, þrettán :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hlíðarvatn - Dagar 32-33-34
6.8.2010 | 14:39
Hlíðarvatn í Selvogi varð fyrir valinu yfir Verzlunarmannahelgina. Raggi og Danni skelltu sér með og vorum við í góðu yfirlæti í skála Stangaveiðifélags Hafnarfjarðar - SVH. Mikið var grillað og étið í ferðinni að vanda, hrefna, lambakjöt, svínakjöt og að lokum bleikja. Veiðin var ekki góð en við tókum samt með í kringum 35-40 fiska, stærsti um 1,5-2 pund.
Veðrið var að plaga okkur alla ferðina, mikill vindur og svo rigning og vindur :/ Botnavíkin gaf best og sérstaklega Botnlanginn, þar kraumaði allt af bleikju en heldur smátt. Þær tóku áberandi mest Krókinn #12, en einnig svart vinylribb #14 og pheasant tail #16. Prófaði þurrflugur en gekk lítið. Ég veiddi semsagt frá 18-01 á laugardeginum og svo sunnudag og mánudag til kl. 18 og því teljast þetta 3 fullgildir veiðidagar. Þá erum við komnir á 34 daga og 16 eftir, semsagt tæplega 1/3 eftir.
Hér er hlekkur á grein af vefnum hjá Árvík, þar er einnig kort af svæðinu með veiðistöðum merktum inná. http://www.arvik.is/?c=webpage&id=70
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)