Hvannadalsá í Ísafjarðardjúpi - Dagar 31 og 32

Það má með sanni segja að ferðin í Hvannadalsá hafi verið viðburðarrík og misjöfn en byrjum á staðsetningunni. Hvannadalsá er í um 300 km fjarlægð frá Reykjavík, eða 50 km norðan við Hólmavík og er áin sem sést á vinstri hönd þegar komið er niður af Steingrímsfjarðarheiði á leið norður.

Hvannadalsá og Langadalsá eiga sameiginlegan ós. Laxinn í ánni er sagður auðþekkjanlegur á því hversu sver hann er og eru nokkrir fossar sem hann þarf að komast upp til þess að ná ofarlega í ánna. Fyrsti fossinn af einhverri stærð er Djúpifoss og ber hann nafn með rentu, því í honum er alveg svaðalegur hylur og alveg ótrúlegt að setja í fisk þarna ef hann ákveður að kafa, því maður trúir varla hversu mikið af línu fer af hjólinu, beint niður.

DjúpifossÞað var nóg af fiski í ánni, og sást lax á flestum merktum veiðistöðum. Sérstaklega ber að nefna Djúpafoss (Árdalsfoss), brúnna (Rauðabergsfljót), Imbufoss og Hellufoss. Ég sá ekki mikið af fiski á breiðunum en á nokkrum stöðum voru þeir neðarlega í straumnum. Ég fór ekki ofar en Hellisfoss og ekki neðar en Djúpafoss og get því ekki fjallað um þá staði.

Djúpifoss skilaði tveimur góðum tökum og einum laxi. Ég setti í all rosalegan fisk um klukkutíma áður en seinni vaktinni lauk en flugan lak af þegar ég var að byrja að landa honum... Frown Ég giska á að hann hafi verið yfir 20 pund og það var ekki sá eini sem ég sá af þeirri stærðargráðu í ánni.

Ég setti auðvitað saman smá vídeó úr ferðinni og þar er eitthvað blaðrað og sjást þar einnig nokkrir laxar :)

Veiðistaðalýsingu má nálgast hér: http://www.agn.is/veidistadir1.asp?element_id=2449&cat_id=1294 og kort af ánni eru hér:  http://www.agn.is/upload/files/hvannadalsa_a.pdf og hér: http://www.agn.is/upload/files/hvannadalsa_b.pdf

Ég veiddi hálfan og hálfan og má eiginlega segja að fyrri vaktin hafi farið í að skyggna staði og kynnast þeim. Áin er frekar nett á köflum og það þarf að passa hvernig maður kemur að veiðistöðunum svo maður styggi ekki fiskinn, hann lá oft öðruvísi en ég hefði búist við.

 


Ósá - Dagur 28

Sjóbleikjur úr ÓsánniEins og síðustu daga hef ég haldið mig í heimabyggð. Eftir að hafa reynt við árnar í Syðridal er komið að Ósánni sjálfri, sem rennur úr Syðridalsvatni og niður í sjó. Sjóbleikjan er málið þarna en einnig veiðist stöku lax og staðbundin bleikja.

Morgunvaktin gaf sex þokkalegar bleikjur en sú stærsta slapp auðvitað og sleit 5 punda taum. Það er í annað skiptið sem það gerist á stuttum tíma og ég þarf greinilega að hafa sterkara í þessu Wink

Þær tóku áberandi best svartan vinylribb með gráum kraga og silfurkúluhaus, stærð 14 en einnig tóku tvær rauðan vinylribb með gullkúluhaus. Það var mikið af minni fiski sem fékk líf og í sumum hyljunum á í nánast hverju kasti. Allt var þetta veitt upstream með tökuvara.

SyðridalsvatnHérna er svo kort af svæðinu en þarna sést einnig hluti af Bolungarvík og höfnin. 

Hylirnir sem ég veiddi eru um það bil frá vatninu og um 500 metra niðureftir.

Hér fyrir neðan er svo vídeó frá morgninum.

 


Syðridalsvatn - Dagar 25-27

SyðridalsvatnÉg hef áður fjallað um Syðridalsvatn sem prýðir Syðridal í Bolungarvík.

Ósáin liggur frá sjó upp í vatnið og eru veiðileyfi seld þar sérstaklega í Shellskálanum sem blasir við þegar komið er inn í þorpið.

Fyrir vatnið og árnar sem liggja í það gildir veiðikortið: www.veidikortid.is.

Ósáin er vinsæl sjóbleikjuá og gengur töluvert af bleikju upp í vatnið og áfram í árnar upp með dalnum. Einnig veiðast stöku laxar á vatnasvæðinu en má varla gera ráð fyrir slíkum feng.

Vatnið er þokkalega stórt og margir ágætir veiðistaðir við það en sérstaklega má nefna þar sem ferskt vatn rennur í það. 

Einnig eru nokkrir góðir hylir í ánum sem renna í vatnið og fékk ég nokkrar flottar sjóbleikjur undanfarna daga og tók einn unglingurinn minn 6 bleikjur upp úr sama hylnum og sú stærsta var um 3,5 pund. 

Eins og sjá má í vídeóinu og hér fyrir neðan þurfa hylirnir ekki að vera stórir, t.d. hérna sleit ein bleikjan 5punda girni, sú var bara nokkuð stór Wink

Sjóbleikjur í hyl


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband