Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014
Efst á Arnarvatnshæðum
15.7.2014 | 14:26
Heiðin tók á móti mér með fallegum fiski úr fyrsta hylnum sem ég prófaði í Austuránni þetta árið. Ég hef verið heppinn með góða kveðju úr þeirri á ansi oft og ég segi stundum, reyndar meira af alvöru en gamni að hún er uppáhaldsáin mín og kannski ekki að undra. Enda held ég að ég hafi veitt meira á þurrflugu þar en líklega í öllum öðrum ám samanlagt. Fiskurinn tók nú samt sem áður Watson´s Fancy þyngda púpu því þurrfluguveðrið lét á sér standa þetta árið.
Staðan á stofnunum virðist vera svipuð og síðust ár, bleikjan lætur lítið fyrir sér fara en samt heldur meira en undanfarin 2 ár. Urriðinn er fyrirferðarmeiri en hann var, sérstaklega í Arnarvatni stóra og Sesseljuvíkin í aðalhlutverki þar.
Myndabandið er nú samt sem áður heldur öðru vísi en ég er vanur því tækifæri gafst til að taka upp ljóðið hans Jónasar Hallgrímssonar með góðri vina hjálp. Þar komu til Ragnar Gunnlaugsson frá Bakka í Miðdal og Sigfús Ívarsson frá Vatnsdal. Þeir sungu það í sjálfri Dísarbúð og að sjálfsögðu við mikinn fögnuð viðstaddra :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)