Stóra Laxá - Svæði 4 - Dagur 23 og 24
4.7.2010 | 09:15
Jæja, þá er komið að ferð 1 í lax í sumar. Stóra í Hreppunum, svæði 4 varð fyrir valinu, reyndar ansi snemmt en það er aldrei að vita hvað gerist. Meðalveiðin er 70 laxar á sumri sem er ansi lítið, því ég skaust hingað eina vakt í fyrra og við fengum 3 þá. Ég helt að veiðin væri meiri, en hvað veit ég.
Við Danni rúlluðum upp eftir og höfðum plön um að fara niður aftur í tíma fyrir Brasílíu - Holland leikinn en það átti eftir að koma á daginn að gekk ekki alveg eftir.
Við veiddum frá kl. 16-22 í alveg brjáluðu veðri, roki og rigningu með óveðurspá og viðvaranir í útvarpinu :) Alvöru sko. Við byrjuðum í Klapparhyl og veiddum okkur niður ánna. Síðan fórum við á neðsta svæðið nema við slepptum alveg neðsta veiðistaðnum, Bláhyl því við höfum ekki tíma. En þetta var nánast ómögulegt, vindurinn alveg á fullu, við báðir með einhendur og varla hægt að kasta. Hérna er vídeó með fyrstu vaktinni.
Við vöknuðum kl. 6 um morguninn eftir og náðum að hella upp á kaffi auk þess að troða í okkur smá morgunverði en síðan var haldið af stað upp eftir og þar áttum við eftir að rekast á nokkra kafbáta í veiðistað sem heitir Skerið, þvílíkir fiskar. Síðan var haldið á Hólmasvæðið og við enduðum vaktina í Klapparhyl, þar sem við byrjuðum og þá byrjaði ævintýrið fyrir alvöru.
Oh boy, fyrsti alvöru laxinn á land í sumar, 68 sm flottur, nýgenginn og lúsugur. Það kom mér verulega á óvart að sjá lúsuga laxa nánast uppi á hálendi. 80 km til sjávar og þeir taka þetta bara á sprettinum. Myndband af seinni vaktinni er hér.
Hann tók kl. 12.30 og ég var 1 tíma og 15 mínútur að ná honum, aðstæður voru mjög erfiðar, klettanef á vinstri hönd og þverhnýpt niður, ég gat því lítið tekið á honum og varð að þreyta hann rólega en örugglega og vona að línan héldi þrátt fyrir að vera stanslaust að nuddast við grjót.
Síðan gekk löndunin alveg hreint frábærlega og við nánast hlupum uppeftir til að ná seinni hálfleik sem við horfðum svo á á bensínstöðinni í Árnesi :)
Athugasemdir
Sæll Gústi.
Gaman að þessu hjá ykkur. Sjálfur er ég í árnefnd Stóru-Laxár og ég átti því láni að fagna að opna svæði IV þetta sumarið. Þið hefðuð átt að ná þessum fiskum í Skerinu. Þegar við höfum séð fiska þar þá klikkar það ekki að við setjum í 1-2 og svo er alltaf fiskur á Pallinum en Hólmabreiðan sjálf virðist vera ónýt. Ég vona að þið hafið notið Stóru í botn.
Kv. Nökkvi Svavarsson
Nökkvi S (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 15:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.